Endurhönnun Höfuðborgarsvæðisins

15 Mar

Þetta plagg er verkefnislýsing í vinnslu (síðast endurskoðað og þýtt á íslensku í mars 2013) og sem notað hefur verið í vinnusmiðjur:

Haustið 2011 í samvinnu við arkitektadeild LHÍ

Pages from SCIBESLIDES1

Haustið 2012 í samvinnu við skipulagsdeild Lbhí og EMU (European Postgraduate Master of Urbanism)

Pages from SCIBESLIDES-2

Afraksturinn úr vinnusmiðjunum verður til sýnis í Hannesarholti á Hönnunarmars 2013

Hörgull og sköpun í útjaðri Reykjavíkur

Hannesarholt
Grundarstígur 10

15/03 15:30 – 15/03 18:30
16/03 13:30 – 16/03 17:00
17/03 13:30 – 17/03 17:00

Hnattrænar breytingar í fjármálaheimi og veðurfari valda óvissu um hönnun hins byggða umhverfis. Gæti góð hönnun borgar og húsakosts verndað íbúana fyrir sviptingum á fjármálamörkuðum jafnt sem fyrir veðri og vindum? Það ríður á endurskoðun á því hvernig hönnun getur gert byggt umhverfi seigara til að anna búsetu þegar aðstæður breytast. Ný samhengi rýmis og starfsemi má finna í byggingum, reitum, hverfum og borg. Kasta verður á glæ geldum starfsaðferðum sem sköpuðu fjölmörg vandamál fyrir höfuðborgarsvæðið og íbúa þess fyrir hrunið og þróa nýjar í staðinn.
Ógöngur í hraðri umhverfingu umhverfisins (2002-2008) birtast í brotakenndu borgarlandslagi sem er íþyngjandi fyrir vistkerfið. Það veldur ójöfnuði meðal fólksins, skuldum og háum viðhaldskostnaði.
Hin nýju hverfi (aðallega íbúðarhverfi) sem voru í byggingu síðustu 6 árin fyrir hrun eru u.þ.b. 25% af fótspori borgarinnar, og eru þau aðallega staðsett á jaðri borgarinnar þar sem hún svo skýrt mætir náttúruöflunum.

Veðurfar, jarðvegur og vatn hefur í för með sér takmarkanir fyrir landbúnað, uppbyggingu, sjávarfang og trjárækt. Meiri þekking á landsháttum og náttúrufari, og á því hvernig þetta getur nýst í mótun hins byggða umhverfis, getur boðið uppá nýjar hugmyndir og tækifæri. Lokun hringrásar efnanna eins nálægt upprunnanum og mögulegt er gæti sparað þjóðarskútunni ómældar fjárhæðir og þróun umhverfisins yrði gerð óháðari innflutningi frá útlöndum sem öll eru í órafjarlægð, ólíkt því sem gengur og gerist í öðrum löndum.
Til að sigrast á vandamálunum eftir hrunið of efla grænt hagkerfi er mikilvægt að rannsaka möguleikana sem felast í hálfbyggðu umhverfi nýrra borgarhluta þar sem búið er að dæla inn mikllu magni efnis sem er illa eða ekki nýtt. Kortlagning á vandamálum og tækifærum í því sem er til staðar nú þegar, er nauðsynleg áður en nýjum framtíðarsýnum er kastað fram. Hönnuðir eru sérþjálfaðir í að skrásetja og lesa í kortin möguleika og verðmætaaukningu þar sem aðrir sjá aðeins vandamál og drasl. Hönnun ein faga hefur líka tólin til að myndgera hvernig framtíðarsýnir geta litið út í raun og veru í umhverfinu.

1
SVIÐSMYND BÚSETUNAR
Sveigjanleg rými, ólíkir valmöguleikar í búsetuformi, samnýting og blönduð notkun styrkir búsetukostina.
AÐ BÚA SAMAN – á forsendum lóðarinnar, hverfisins, héraðsins, landsins, saman eða sér

.
Staðbundin og hnattræn vandamál / tækifæri:
Á þenslutímanum fyrir kreppuna voru sveitarfélögin sjö á svæðinu í samkeppni um fleiri íbúa, hvert fyrir sig. Byggingarmagnið samsvaraði ekki fjölgun íbúa á svæðinu á tímabilinu. Milli 2000-2008 fjölgaði íbúðum um 26,8% á höfuðborgarsvæðinu meðan íbúum fjölgaði bara um 13 %, og gera margar einingarnar ráð fyrir mjög stóru rými á mann.
Jafnvel þótt of mikið hafi verið byggt, margir flytji til annarra landa og sumir út úr borginni vegna kreppunnar, annar ekki húsnæðið þörfinni. Þörf er á annars konar húsnæði en því sem er á boðstólum, ódýru leiguhúsnæði til búsetu og gisti- og þjónusturými fyrir ferðamenn. Þörfin fyrir ódýrara húsnæði auk þarfar á nýjum tekjumöguleikum má rekja til atvinnubrests og skulda heimilanna. Eiguhúsnæði, sem hingað til hefur verið meginreglan, virkar nú nokkuð vafasamur hluti velferðarkerfisins, því íbúðakaup hafa steypt fólki (þeim ungu sérstaklega) í gjaldþrot og/eða hneppt það í skuldafangelsi. Hið opinbera bíður uppá fá tækifæri sem mótvægi við dýran leigumarkað.
Það er þörf á sveigjanlegara húsnæði sem laga má að nýjum þörfum og óhefðbundum lifnaðarháttum. Ungt folk frestar því að yfirgefa föðurhúsin og smærri fyrirtæki drýgja tekjurnar með að flytja starfsemina í heimahús. Fólk hefur meiri tíma til að vera í og umhverfis heimili sitt og með börnum sínum þegar minni atvinnu er að fá vegna efnahagslægðar. Fleiri verja tíma í að sýsla við og klára húsin sín sjálfir og menn hjálpast að með vinnuskiptum og lánum á verkfærum. Meiri tími bíður uppá tækifæri til að velja sér nýja lifnaðarhætti og rýmisnotkun.
Margar byggingar standa auðar. Þetta er sérstaklega áberandi í jaðarbyggðum, þar sem hús eigenda sem ekki gátu staðið í skilum hafa verið yfirtekin af lánastofnunum sem aftur eru að stórum hluta í eigu erlendra lánadrottna. Bólan lætur eftir sig stór hverfi stórra einbýla 300-400m2, sem mörg hver eru ófullgerð og liggja sum undir skemmdum. Hin aðaltegund híbýla er gerólík, ótengdar rétthyrndar íbúðablokkir með öllu minni íbúðareiningum með litlum sveigjanleika.
Útjaðar byggðarinnar samtvinnast ríkulegum útirvistarsvæðum sem oft eru á mörkum borgarinnar, svo sem golfvöllum, hesthúsahverfum og reiðleiðum. Þessi landnotkun með vannýttu íbúðarrými í næsta nágrenni er afar illa rannsökuð með tilliti til aukins straums ferða-fólks, jafnvel þótt hið Íslenska hestakyn sé víða frægt fyrir einstaka kosti og dragi marga ferðamenn til landsins. Mörg hesthúsanna sem voru í byggingu rétt fyrir hrunið (sum ekki enn fullbyggð) hafa stór rými fyrir aðra notkun en hýsingu hesta og heys. Þetta mætti líta á sem óþarfa lúksus eftir hrunið, en við endurskoðun og endurhönnun húsakostsins gætu þessi rými boðið uppá margvíslegt notagildi.
HVAÐ EF: borgarumhverfi jaðarbyggða höfuðborgarsvæðisins yrði endurhannað fyrir fjölbreyttara SAM-LÍFI með ólíkum tegundum inni- og útirýma sem gögnuðust til að hýsa ferðafólk á hægferð?
Hvaða hvatar myndu styðja hugmyndirnar og hvernig væri hægt að þróa þær vænlega?
Hvernig gæti hugmyndin fært björg í bú og verið íbúum til yndisauka?
Hvaða tækifæri er að finna í gnægð af of stórum rýmum til búsetu, tómum byggingum, ófullgerðum byggingum, íslenskum hestum, reiðleiðum, hesthúsum, framandlegri (fyrir gesti) náttúru, ónotuðum byggingum, nýjum hegðunarmynstrum, ýmsum tegundum gesta?

.

2
SVIÐSMYND MATARINS
Þú ert það sem þú étur.
AÐ RÆKTA SINN EIGIN MAT ER EINS OG AÐ PRENTA SÍNA EIGIN PENINGA – á forsendum lóðarinnar, hverfisins, héraðsins, landsins, saman eða sér

.
Staðbundin og hnattræn vandamál / tækifæri:
Sögulega hefur Reykjavíkursvæðið verið samtvinnað landbúnaðarstarfsemi. Landbúnaði var ýtt út úr borginni eftir seinna stríð, samhliða færri og stærri búum og innflutningi á mat. Eftir að kreppan skall á hefur áhugi á ræktun jurta, grænmetis og ávaxtatrjáa margfaldast og lífræn ræktun hefur aukist svo um munar. Bændamarkaðir hafa komið fram á sjónarsviðið.
Um það bil 2500 skráningar voru á námskeið sem kenndu ræktun fyrstu þrjú árin eftir hrunið og ekkert lát er á, lítill markaður hafði verið fyrir svona lagað í bólunni. Garðyrkjufélag Reykjavíkur og önnur samtök hafa starfað að verkefnum með íbúum og Reykjavíkurborg hefur stutt ýmis verkefni, t.d. eitt sem gekk út á að byggja gróðurhús í almenningsgörðum til matvælaræktar í samvinnu við íbúa í nágrenninu. Íbúar hafa fengið aukin tækifæri til að leigja land til ræktunar frá sveitarfélögunum, sérstaklega í jaðri byggðarinnar. Gróðurhúsaræktun á Íslandi er sérstaklega hagkvæm vegna jarðvarma og raforku sem getur lýst upp húsin dimmustu mánuðina).
Þessi tegund starfsemi snertir borgarumhverfið í ólíkum skala (frá neyslunni inni á heimilinu, til lífrænnar ræktunar í sveitum landsins til matargerðar innanlands vs. matarinnflutnings) og einstaklinga jafnt sem almenning. Það er ræktun í gluggakörmum, í glerskálum, á húsþökum, í einkagörðum og á landi sem einstaklingar leigja frá sveitarfélögum. Það er mikill áhugi fyrir ræktun matvæla á sameign íbúðablokka þótt það hafi verið erfitt að komast að samkomulagi milli eigenda (margir saman í byggingum vegna séreignarstefnunnar) um breytingar á notkuninni.
Það að bera ávöxt af ræktun á staðnum styttir vegalengd matar til neytandans og gerir fólk minna háð stórmörkuðum og innfluttum afurðum sem hafa hækkað í verði eftir hrunið. Þetta fullnægir neytendum sem vilja vita hvaðan maturinn kemur sem þeir láta ofan í sig og eflir framleiðendur og atvinnulíf á svæðinu. Auk þess styrkir þetta samheldni og kennir börnum um fæðuöryggi og matargerð. Sú iðja að rækta til matar getur verið efld og aukin svo um munar með endurhönnun á umhverfinu, skipulagningu og arkitektúr.
Veruleg ræktun matar í skjóli hekks og skjólbelta getur orðið byggingareining í þeim fjölnota skógi sem er í byggingu í útjaðri borgarinnar: Græna treflinum. Fjölbreytt nýting skógarins felst m.a. í minnkun sótsporsins, yndisauka rýmisins, timburframleiðslu fyrirbyggingariðnaðinn, fyrirbyggingu uppblásturs, skjóli fyrir vindum á berangurslegum svæðum í útjaðri borgarinnar, allt þetta um leið og grænu svæðin í borginni eru styrkt.
Hin nýju íbúðarhverfi á jaðrinum hafa gnægð opins rýmis milli húsanna, ekki síst þar sem bygging samkvæmt skipulagi hefur látið á sér standa vegna hrunsins. Þessi ríkulegi græni vefur úti um borgina gerir að verkum að auðveldara er að tengja íbúðarhúsnæði, atvinnuhúsnæði og daglegt líf fólksins við náttúruna og landbúnað í borginni, ef til vill enn meir á jaðrinum en í borgarkjarnanum þar sem borgin er þéttari. Loftslagsbreytingar auka tækifærin þegar kemur að ræktun matvæla á Íslandi, þar sem hlýrri veðrátta auðveldar ræktun fleiri tegunda.
Á mörkum borgarinnar hafa margir einstaklingar í gegnum sína iðju kannað og styrkt trúna á möguleikana í nánasta umhverfi: Bóndinn með býflugna- og ávaxtaræktun, búkonan með hænur í gróðurhúsinu, smiðurinn með eigin einingaverksmiðju og kaffihús, vísindamaðurinn og rannsóknir hans á jarðarbótum og laufi sem stendur af sér fárviðrin, listakonan með fisk í tjörninni, kokkurinn með íslenskar jurtir og dúfur  andspænis eldhúsinu sem opnast út í garðinn. Þetta fólk átti bæði undir högg að sækja, en sá líka ný tækifæri í hinni nýju byggð. Þau eru frumkvöðlar og uppspretta þekkingar og innblásturs.

.

HVAÐ EF: borgarumhverfið á jaðri byggðarinnar breytti búsetu og byggi til atvinnutækifæri sem tengdist náttúrunni, landbúnaði og skógrækt?
Hvaða hvatar myndu styðja hugmyndirnar og hvernig væri hægt að þróa þær vænlega?
Hvernig gæti hugmyndin fært björg í bú og verið íbúum til yndisauka?
Hvaða tækifæri er að finna í gnægð jarðvegs, vatns, jarðhita í pípunum á staðnum, endurnýjanlegri raforku, hesta- og hænsnaskít, vegakerfi, meiri tíma, vinnuafli, stóru vannýttu atvinnuhúsnæði?

.

3
SVIÐSMYND VATNSINS
Vatn er nauðsynlegt öllu lífi og gott hreint vatn er heilsulind. Vatnið er nauðsynlegt fyrir vistkerfi jarðarinnar.
HVER DROPI SKIPTIR MÁLI – á forsendum lóðarinnar, hverfisins, héraðsins, saman eða sér

.
Staðbundin og hnattræn vandamál / tækifæri:
Í ljósi þess að vatn er víðsvegar af skornum skammti og (mis)skipting vatnsins sé af fræðimönnum notað til að sýna hvernig vald virkar, sitja íslendingar á miklum gersemum: stærstu vatnsbyrgðum á mannsbarn í Evrópu. Ferskvatnsbirgðinar eru áætlaðar 170.000 million m3 og þær öruggustu í heimi þegar litið er til þess að það rignir tveimur metrum vatns á ári, Ísland er mjög strjálbýlt og lítið álag er á vatnið (European Environmental Agency 2010; Icenews 2010). Vatnið á Íslandi er nýtt t.d. í fjölmargar sundlaugar, til fiskeldis, til fiskveiða og til ilræktar. Vötn, ár, læki, stórfljót og fossa má sjá og njóta víðsvegar á landinu.
En vatn getur líka verið af skornum skammti þar sem venjulega er nóg (t.d. í Reykholdi á Akureyri og í Bláfjöllum). Vatn er viðkvæm auðlind. Þurrkar, flóð og mengun vatns getur ógnað vistkerfum, samféögum og frárhagslegum grundvelli allra byggðarlaga.
Ný íbúðahverfi á mörkum höfuðborgarsvæðisins ógna vatnsverndarsvæðum Gvendarbrunna. Ennfremur er þrýstingur á að flytja flugvöllinn úr miðborginni sem hefur þá fá aðra stað-setningarkosti á höfuðborgarsvæðinu en Hólmsheiði í næsta nágrenni við uppsprettuna, en þar eru í bígerð svæði fyrir þungan iðnað, mitt í Græna treflinum, jafnvel þótt það séu fleiri hálfuppbyggð iðnaðar-svæði eftir bóluna víðsvegar annars staðar í jaðri byggðarinnar.
Vatn gegnir einnig lykilhlutverki í því að bera jarðhita. Síðustu árin fyrir hrunið voru miklar framkvæmdir fyrir virkjun jarðhita í nágrenni höfuðborgarsvæðisins. Þótt jarðvarmi sé skilgreindur og  markaðssettur sem sjálfbær hrein orka er hann vandmeðfarinn, séstaklega nærri mannabyggðum. Mengunarvandamál eru frá virkjuninni: Loftmengun í nærliggjandi bæjarfélögum, sem spillir heilsu og eyðileggur viðkvæm tæki, og hætta er á grunnvatnsmengun og mengun í náttúruundrinu Þingvallavatni. Sjálfbærnina verður að draga í efa þar sem nýjar borholur verður að bora þegar þær eldri tæmast, þar sem áætlað er að 200 ár taki að þær fylla þær aftur.
Borunin veldur jarðskjálftum í allt að 45 kílómetra radíus sem vekja óhug í fólki. Nú er í bígerð margföldun virkjanaframkvæmda á öllu Reykjanessvæðinu til enn meiri stóriðju sem ógna mun byggðu umhverfi frekar, verðmætum í grunnvatni og svæðinu sem með sína einstöku náttúrufegurð og áhugaverðu göngu og reiðleiðir mætti kalla bakgarð höfuðborgarsvæðisins. Erlendum viðskiptamönnum er boðið að taka þátt í þessum ferlum þar sem sá skilningur virðist ráðandi að aðeins erlend fjárfesting komi til að forða Íslandi frá gjaldþroti.
Í nýjum íbúðarhverfum hafa yfirleitt allir innviðir allir lagna verið lagðir áður en hús eru byggð, og beita verður fullum krafti á veitukerfin þegar ekki hafa verið nema örfá hús byggð, rétt eins og allt hverfið hefði verið fullbyggt. Þetta, auk annarar sóunar Orkuveitunnar hefur ýtt þessu fyrirtæki íbúanna á barm gjaldþrots.
Hnattrænar breytingar magna upp þrýsting á vatnsbirgðirnar víðsvegar um heiminn: Breytingar í loftslagi breyta mynstri í úrkomu og uppgufun. Ágangur í landnotkun vegna fjölgunar jarðarbúa eykur eftirspurn eftir nægu hreinu vatni og mengunaráhættan eykst (iðnaðarmengun og notkun mikils áburðar og skordýraeiturs í landbúnaði). Þetta gerir vatn að æ verðmætri og eftirsóttari auðlind. Auknar erjur vegna vatnsréttinda eru til vitnis um þetta, og valda þær fólksflutningum þar sem fólk leitar að nýjum stöðum þar sem nothæft vatn er að fá.  Gnægð vatns á Íslandi gerir landið aðlaðandi fyrir  vatns- og orkukrefjandi verkefni eins og málmbræðslu erlendra stórfyrirtækja og ríkja (Kína), vegna stöðugs og lágs orkuverðs og endurnýjanlegrar orku (orka frá fallvötnum og jarðhita vs. mengandi jarðefnaeldsneyti).

.

HVAÐ EF: Reykjavík yrði heilsuborg þar sem hannaðar yrðu breytingar á umhverfinu sem myndu miða að betri nýtingu á vatninu og minni mengun, þar sem geymsla og verndun vatns og virkjanakosta fyrir komandi kynslóðir væri lykilhugtak. Þar sem vatnið væri endurnýtt á öllum skala frá gasrótinni og uppúr?
Hvaða hvatar myndu styðja hugmyndirnar og hvernig væri hægt að þróa þær vænlega?
Hvernig gæti hugmyndin fært björg í bú og verið íbúum til yndisauka?
Hvaða tækifæri eru í gnægð innviða vatns og hitaveitu,  breyttra lifnaðarhátta eftir hrun, húsnæðis, lands, vatns og orku?

.

4
SVIÐSMYND HREYFANLEIKANS
Vegakerfið tengir saman sýslur fólksins og sinnir tilfærslu enislegra hluta stað úr stað.
HÆGFARA VEGAKERFI – á forsendum lóðarinnar, hverfisins, héraðsins, saman eða sér

.
Staðbundin og hnattræn vandamál / tækifæri:
Samgönguinnviðir byggðir síðustu áratugina hafa stjórnast af þeirri meginreglu að umferð sé beint í stórar umferðaræðar fyrir hraða þunga umferð. Hraðbrautir í borginni tengja íbúðarbyggð við starfsemi, svo sem fyrirtæki, skrifstofur og svæði til tómstundaiðkunar. Brautirnar skerast eins og gjár í gegnum borgina og hafa orðið æ breiðari og erfiðari yfirferðar.
Stærð nýs verslunarrýmis, sem á höfuðborgarssvæðinu jóskt með  meir en 36% frá 2002-2008, var raðað upp meðfram umferðar-slagæðunum, þar á meðal mýgrútur bensínstöðva. Verslunarrýmin eru umlukin stórum malbikuðum flötum (fyrir bílastæði) og mörg rýmana hafa aldrei verið tekin í notkun þar sem áætluð satarfsemi er nú ekki talin bera sig fjárhagslega.
Félagslegir innviðir nýrra íbúðarhverfa, eins og skólar og leikvellir hafa látið á sér standa vegna hrunsins. Íbúar verða því að sækja þjónustuna annars staðar. Dreifing byggðarinnar gerir bílleysi erfitt og fáránlega tímafrekt í ekki fjölmennari borg. Skutlið er líka dýrt, orkueyðandi, mengandi og tímafrekt.
Þegar hrunið kom ofaná samgönguvandann sem er innbakaður í þrælskipulagt vegakerfið, þrýstir það fjölskyldur til samninga innahúss um hver fái forgangsrétt til bíla og bensíns: Hverra starsframi gangi fyrir og hver sjái um skutlið til og frá skólum og tómstundaiðkunum. Það má leiða að því líkum að þetta hafi óhjákvæmileg áhrif á kynjahlutverk innan húss og utan.
Verið hefur á kreiki umræða um að auka fjölbreytni ferðaleiða og ferðamáta í borginni jafnvel með kerfum sem tengja hana enn betur, svo sem með lestarkerfi, neðanjarðarkerfi eða sporvögnum sem geta keppt við önnur vélknúin farartæki og samtvinnast strætisvagnakerfinu. Hér hefur markmiðið verið að að minnka sótsporið. Það er ólíklegt að svona kerfi verði sett á laggirnar í náinni framtíð við bágan efnahag, enda strætisvagnakerfið drifið með metani sem er álitið vistvænna en bensín.
Hraðbrautir sem voru byggðar á höfuðborgarsvæðinu 2002-2008 nema yfir 60 kílómetrum, minni götur voru lagðar yfir 160 kílómetra og níu mislæg gatnamót voru byggð (bara ein mislæg gatnamót kosta u.þ.b. 2,5 milljarða króna). Árið 2012 hafði einungis einn og hálfur kílómetri vegarspotta verið byggður sérstaklega til hjólreiða, þótt 48% af fjárveitingu ríkisins til framkvæmda árið 2011 hafi verið  varið til nýrra vegaframkvæmda. Síðan hafa komið fjárveitingar til fleiri hjólreiðastíga, en þessar brautir eru gagnrýndar af hjólreiðamönnum fyrir að vera einnig ætlaðar gangandi vegfarendum, með tilheyrandi slysahættu.
Það er eftirspurn eftir betra vegakerfi fyrir léttari notkun. Þetta getur verið allt frá hjólreiðastígum, göngustígum, barnalgötum, reiðstígum, aðstöðu fyrir smábáta og kayaka, skíða- og hjólalyftur. Þessir innviðir eru ódýrir í byggingu og rekstri. Þeir bjóða upp á sveigjanlegan lífsstíl og hreyfingu sem bætir heilsuna..
Vegakerfi fyrir létta notkun gæti aðlagað sig betur landslaginu og ‘fínkorna’ landnotkun svo sem vernduðum svæðum, grænum tengisvæðum, lífrænni ræktun og minna bröttum   (slakari) skjólsælum svæðum.
Sterkara vegakerfi fyrir létta notkun ætti að gera ráð fyrir fleiri vinnustöðum nálægt eða inní íbúðahverfunum.

.

HVAÐ EF: net fyrir hægfara umferð sem tengdi fjölbreytta byggð tæki yfir sem aðal umferðaræðarnar höfuðborgarsvæðisins?
Hvaða hvatar myndu styðja hugmyndirnar og hvernig væri hægt að þróa þær vænlega?
Hvernig gæti hugmyndin fært björg í bú og verið íbúum til yndisauka?
Hvaða tækifæri að finna í gnægð núverandi vegakerfis, vatnakerfum (sjó, vötnum, ám), orkukerfum , opnum svæðum?

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Change )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Change )

Connecting to %s

%d bloggers like this: